top of page

Heiðursfélagar

 

Hallgrímur Þorsteinsson

1. heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, 1940.

 

Hallgrímur Þorsteinsson fæddist þann 10. apríl 1864 að Götu í Hrunamannahreppi. Lítið er vitað um hvernig áhugi hans á lúðrasveitaleik kviknaði en hann var fyrst og fremst orgelleikari. Hallgrímur mun hafa komist upp á lag með að blás í horn af eigin rammleik. Hallgrímur átti aðild að stofnun níu lúðrasveita og var Svanurinn ein af þeim og jafnframt sú síðasta. Hann var fyrsti stjórnandi Svansins og kennar fyrstu fimm árin.

 

Það var ekki eingöngu tónlistarlega hliðin sem Hallgrímur lét sig varða, heldur var hann þátttakandi og leiðbeinandi í öllu félagsstarfi og “einn úr hópnum” í fyllsta skilningi. Þá flutti hann inn hljóðfæri og nótur frá Þýskalandi og víðar að og nutu lúðrasveitir um land allt aðstoðar hans í því efni.

 

Hallgrímur var kjörinn heiðursfélagi sveitarinnar á tíu ára afmæli hennar, fyrir framúrskarandi ósérplægni og áhuga á málefnum sveitarinnar.

 

Hallgrímur lést þann 9.nóvember 1952.

 

Karl Ottó Runólfsson

2. heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, 1955.

 

Karl fæddist þann 24. október árið 1900 í Reykjavík. Hugur Karls hneygðist snemma að tónlist og hann var ekki nema 13 ára þegar hann gerðist félagi í lúðraflokki ungtemplara “Svönum” hjá Hllgrími Þorsteinssyni.

 

Hann gekk til liðs við Svaninn árið 1938 og stjórnaði honum allt til ársins 1961 með tveggja ára hléi á stríðsárunum er hann stjórnaði Lúðrasveit Reykjavíkur. Voru þetta alls 21 ár og hefur enginn stjórnandi náð viðlíka starfsaldri með Svaninum hvorki fyrr né síðar. Á þessu árum var starfsemin með miklum blóma og spilað nánast um hverja helgi á sumrin bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Fyrir Svaninn samdi Karl m.a. “Skarphéðinsmarsinn” og “Svansmarsinn”.

 

Karl lést þann 29.nóvember 1970.

 

Hreiðar Ólafsson

3. heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, 1967.

 

Hreiðar Ólafsson fæddist 19. september árið 1917, þrettán árum yngri en bróðir hans Ágúst Ólafsson, þess sem átti hvað mestan þátt í að koma Svaninum á laggirnar árið 1930. Ferill Hreiðars hófst í Lúðrasveitinni með boðberastarfi, því Ágúst útbjó fyrir hann lítið drengjahjól og gerði hann að sendli fyrstu árin. Hreiðar var vitanlega viðstaddur æfingar og kennslutíma og komst því smám saman upp á lagið með að blása í lúður.

 

Hreiðar var einn af máttarstólpum Svansins til margra ára eða í nær fjóra áratugi. Hann starfaði fyrir Svaninn af fádæma elju og fórnfýsi alla sína ævi. Hann vann auk þess mikilvægt og lítt launað sjálfboðastarf við útvegun nótna fyrir lúðrasveitir sem hann sjálfur flutti inn. Hreiðar var gerður að þriðja heiðursfélaga S.Í.L. á landsmóti á Selfossi 26.júní 1966.

 

Hreiðar lést þann 19. september 1979.

 

Sveinn Sigurðsson

4. heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, 1975.

 

Sveinn Sigurðsson fæddist þann 28. apríl 1913 og var virkur félagi allt til ársins 1974, eða samtals í 43 ár. Vart kom fyrir að Svein vantaði á æfingu öll þessi ár enda tryggð hans við félagið með eindæmum jafnvel eftir að hann hætti að leika með sveitinni. Hann var traustur félagi og hann var góður túbuleikari. Sagt er að með túbunni sé markaður líftaktur eða hjartsláttur lúðrasveitar. Svo vildi líka fara þá sjaldan að Svein vantaði á æfingar að lítið varð úr verki hjá hinum.

 

Sveinn gengdi öllum helstu ábyrgðarstöðum í félaginu þau ár er hann starfaði. Hann tók við formennsku af Ágústi Ólafssyni árið 1940 og gegndi því embætti til ársins 1942.

 

Sveinn lést þann 19. nóvember 1989.

 

Gísli Ferdinandsson

5. heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, 1990.

 

Gísli Ferdinandsson fæddist þann 13.október 1927. Hann gekk til liðs við Svaninn sem flautuleikari árið 1947 og starfaði óslitið með Svaninum til ársins 1998 eða í 51 ár og sló þar með öll met. Gísli var fyrsti vel menntaði hljófæraleikarinn sem fyrst gekk til liðs við Svaninn og jafnframt sá fyrsti sem útskrifaðist með einleikarapróf á flautu úr Tónlistarskólanum í Reykjavík. Gísli var nemandi Árna Björnssonar tónskálds á þessum árum. Gísli lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu árum hennar en valdi hinsvegar að gera skósmíðar að sínu framtíðarstarfi í stað hljóðfæraleiks enda hafði hann fyrir stórri fjölskyldu að sjá.

 

Gísli hefur staðið af sér alla brotsjói sem dunið hafa á Svaninum í gegnum árin og er sá eini af eldri félögum sem starfaði með hljómsveitinni á breytingatímum hennar frá árunum 1976-1980. Gísli var formaður sveitarinnar á árunum 1950-1951 og hefur einnig gegnt mörgum öðrum ábyrgðarstörfum. Hann hefur ennfremur verið endurskoðandi Svansins til fjölda ára og veitir gott aðhald hvað varðar fjárreiður félagsins. Gísli var góður og dyggur félagi og kynslóðabil er eitthvað sem Gísli hefur ekki skráð í sína orðabók.

 

Eysteinn Guðmundsson

6. heiðurfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, 1990

 

Eysteinn Guðmundsson fæddist í Reykjavík þann 5. ágúst 1923. Hann lærði á trompet hjá Karli O. Runólfssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík í þrjú ár. Árið 1946 gekk Eysteinn til liðs við Lúðrasveitina Svan og starfaði þar allt til ársins 1971 eða samfleytt í 27 ár. Lengst af lék hann á trompet en síðustu árin lék hann á althorn.

 

Eysteinn sat í stjórn Svansins mest allan feril sinn þar. Hann tók við formennsku af Gísla Ferdinandssyni og gegndi því embætti í 10 ár þar til Þórir Sigurbjörnsson tók við.

 

Það helsta sem Eysteinn minnist frá þessum árum var að Svanurinn, fyrst íslenskra lúðrasveita, fékk sér einkennisföt, bláan jakka og gráar buxur, og hurfu frá hvítu húfunum. Þetta var mikið framfaraskref á þeim tíma. Einnig urður stjórnendaskipti í formannstíð Eysteins. Karl O. Runólfsson lét af störfum eftir áratuga gifturík störf og við tók Jón G. Þórarinsson. Má segja að með honum hafi hafist nýtt tímabil hjá Lúðrasveitinni í tónlistarlegu tilliti þar sem efnisvali var gerbreytt.

 

Þess má geta að Eysteinn hefur bæði verið sæmdur silfur- og gullmerki Svansins fyrir 10 og 25 ára vel unnin störf í þágu sveitarinnar.

 

Sæbjörn Jónsson

7. heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, 1990.

 

Sæbjörn Jónsson fæddist þann 19. október 1938 að Vegamótum í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Sæbjörn ólst upp í Stykkishólmi og hóf fljótt afskipti þar af tónlistarmálum. Hann lék sína fyrstu tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1963 og starfaði með henni í um 30 ár.

 

Sæbjörn gekk til liðs við Svaninn árið 1960 sem trompetleikari. Hann tók við tónsprotanum árið 1974 og stjórnaði sveitinni allt til ársins 1982. Hann gegndi öllum helstu embættum Svansins og var formaður á árunum 1966-1968. Sæbjörn var einn helsti hvatamaður að stofnun unglingadeildar á árinu 1976. Sæbjörn var ekki aðeins stjórnandi á þessum árum heldur var hann sannur félagi sem lét sér ekkert óviðkomandi í starfseminni. Óeigingirni og fórnfýsi hans áttu sér engin takmörk á þessum árum. Hann var skipuleggjandi starfsins, kennari og óeiginlegur “faðir” unglinganna. Umburðarlyndi eiginkonu hans, Valgerðar Valtýsdóttur, var einnig með eindæmum því vakinn og sofinn var Sæbjörn einatt með hugann við “Svaninn sinn”. Það er einnig gaman að segja frá því að á vortónleikum Lúðrasveitarinnar árið 1981 léku öll börn þeirra Sæbjörns og Valgerðar með, þau Jón Aðalsteinn, Valbjörn, Alma og Smári.

 

Sæbjörn lést þann 7. ágúst 2006.

 

Jón Sigurðsson

8. heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, 2000

 

Jón Sigurðsson, trompetleikari til margra ára í Sinfóníuhljómsveit Íslands, stjórnaði Svaninum í 10 ár, 1964-1974 og átti þátt í því m.a. að gefa út stereo hljómplötu með Svaninum og æfa skrautgöngur sem sýndar voru á Laugardalsvellinum á undan fótboltaleikjum. 

Jón lést þann 16. ágúst 2018.

bottom of page